Rauð veðurviðvörun!

Skjáskot af veðurkorti á heimasíðu Veðurstofunnar. Á myndinni er Ísland litað rauðum lit eftir rauðri veðurviðvörun. Vestfirðir eru litaðir appelsínugulir.
 
Veðrið heldur áfram að hamast í okkur og nú eru komnar rauðar veðurviðvaranir í kortin í flestum landshlutum. Við hvetjum fólk til að kynna sér þetta á vef Veðurstofunnar vedur.is
Á okkar svæði hér á Norðurlandi eystra er gert ráð fyrir sunnan og suðvestan roki eða ofsaveðri. Reiknað er með að vindur geti orðið 28-33 m/s og geta staðbundnar vindhviður farið yfir 50 m/s.
 
Rauð viðvörun fyrir Norðurland eystra tekur gildi kl. 17:00 í dag miðvikudaginn 05.02.2025 og stendur til kl. 22:00 í kvöld. Þá tekur appelsínugul viðvörun við til kl. 05:00 í fyrramálið. Þá kemur örlítið uppihald og appelsínugul viðvörun hefst að nýju kl. 08:00 og svo rauð kl. 10:00 og fram eftir degi á morgun, þann 06.02.2025. 
 
Það getur orðið foktjón í þessu veðri og samgöngur munu mjög líklega raskast. 
Við hvetjum íbúa okkar til að gera viðeigandi ráðstafanir, festa lausamuni, svosem grill og fleira sem er á svölum eða koma í öruggt skjól, tryggja að gluggar og hurðar séu vel lokaðar. Reikna má með að veðrinu fylgi talsverð rigning en það er talsvert mismunandi eftir landshlutum. 
 
Ef þörf er á aðstoð viðbragðsaðila, hringið þá í 112